Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, segist hafa beðið Inga Þór Steinþórsson afsökunar á hvernig að uppsögn hans var staðið.
Inga var sagt upp sem þjálfara karlaliðs KR fyrr í þessum mánuði. Fjölmiðlar greindu frá uppsögninni áður en tilkynning kom úr herbúðum KR.
„Við buðum Inga nýtt starf í KR sem yfirmaður körfuboltamála. Við áttum fund á föstudegi og hann bað um frest til sunnudags til að hugsa mál. Við ræddum aftur saman á sunnudaginn og hann afþakkaði starfið,“ sagði Böðvar í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag.
„Ég vildi halda honum í félaginu og fá hann yfir í stjórnarteymið með okkur. En hann ákvað að taka því starfi ekki og leita annað,“ bætti Böðvar við. Í síðustu viku var Ingi svo ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar.
Böðvar segir að málið hafi tekið aðra stefnu en KR-ingar vonuðust til.
„Ferlið snerist upp í höndunum á okkur. Og ég bað Inga afsökunar því. Við hefðum getað unnið þetta betur. Ég tek fulla ábyrgð á því,“ sagði Böðvar.
„Verklagið á þessu snerist upp í höndunum á okkur og ég er miður mín yfir því. Ég gerði mistök og viðurkenni það.“
Darri Freyr Atlason var kynntur sem eftirmaður Inga hjá KR í dag. Hann gerði tveggja ára samning við félagið.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.