Mohamed Salah skoraði magnað mark þegar Liverpool vann 2-0 sigur á Red Bull Salzburg í gær og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Knattspyrnustjóri Liverpool vildi hins vegar tala um öll dauðafærin sem Egyptinn klúðraði í leiknum.
„Mo skoraði líklega úr erfiðasta færinu sínu í leiknum,“ sagði Jürgen Klopp við BT Sport eftir leikinn í Austurríki í gær.
Mohamed Salah komst inn í sendingu til markvarðarins, elti boltann upp að endalínu og tókst á einhvern magnaðan hátt að koma boltanum í markið úr mjög þröngu færi.
Mohamed Salah átti aftur á móti að skora miklu fleiri mörk í leiknum því hann óð í færum allar 90 mínúturnar.
"Mo scored the most difficult situation of the whole night!"
— BBC Sport (@BBCSport) December 10, 2019
Jurgen Klopp still doesn't know how Mo Salah did it.
https://t.co/sly0p7hGYwpic.twitter.com/Wd3BCjspjV
Það er eiginlega óskiljanlegt að maður með hans gæði skuli ekki af hafa skorað eitt eða tvö mörk til viðbótar úr öllum þessum færum sem hann fékk.
„Hann spilaði mjög vel en skoraði ekki úr færunum sem við erum vön að sjá hann skora úr. Markið sem hann skoraði, þar sem hann hélt áfram og náði að skora úr svona erfiðu færi, segir líklega miklu meira um hann en öll hin mörkin sem hann hefur skorað,“ sagði Jürgen Klopp.
„Hann hélt einbeitingunni og trúnni á að þetta væri möguleiki. Þetta var stórsnjalt. Mjög erfitt færi en tilkomumikil afgreiðsla,“ sagði Klopp.
Mohamed Salah skoraði fjögur mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en þrjú þeirra komu á móti Red Bull Salzburg. Salah skoraði ekki í leikjunum á móti Napoli en í öðrum leiknum á móti Genk.
Í fyrra skoraði Mohamed Salah þrjú mörk í riðlakeppninni þar á meðal sigurmarkið mikilvæga á móti Napoli sem tryggi liðinu sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.