„Ég hef starfað í leikhúsi síðustu tíu árin sem leikskáld og leikstjóri og var orðinn leiður á því hvað meðgöngutími verka er langur. Mig var farið að þyrsta í að skapa eitthvað þar sem afraksturinn fengist strax,“ segir leikhúsmaðurinn Heiðar Sumarliðason, sem nú hefur fært sig á öldur ljósvakans.
„Mér fannst útvarp vera hinn fullkomni miðill fyrir mig á þessum tímapunkti. Eftir að ég byrjaði með Stjörnubíó varð ég háður þessu kick-i sem maður fær úr útvarpsmennsku og langaði að víkka út möguleg umræðuefni. Snæbjörn var eini félaginn sem kom til greina.“


En hvernig kom nafngiftin til?
„Við erum að heiðra systurþátt okkar Harmageddon með nafninu. Helstu fyrirmyndir okkar í útvarpi eru þó Tveir með öllu sem voru á dagskrá FM957 snemma á tíunda áratuginum. Þeir voru brautryðjendur í útvarpi á Íslandi,“ segir Heiðar. „Ég var um það bil 11 ára þegar þeir voru upp á sitt besta og sat límdur við útvarpið milli 9 og 12 á sumrin til að heyra hverju þessir meistarar tækju upp á næst. Reyndar hafði Snæbjörn aldrei heyrt um Jón og Gulla þegar ég minntist á þá, honum til varnar var hann varla byrjaður í grunnskóla á þessum tíma, sennilega enn að hlusta á Kardimommubæinn.“



Hægt verður að hlýða á Eld og brennistein alla laugardaga á X977 frá 9 til 12. Í kjölfarið kemur þátturinn á útvarpsvef Vísis og hlaðvarp X977 en stöðin kom nýverið á allar helstu hlaðvarpsveitur. Nægir að stimpla inn X977 í leitargluggann.
Hægt er að hlusta á fyrsta þáttinn hér að neðan.