
Nú kreppir að í mannaveiðabransanum, því launin fara lækkandi, líkt og kemur fram í samtali hans við yfirboðara sinn. Vegna lækkandi launakjöra tekur hann að sér óljóst en vel borgað verkefni frá manni merktum hinu fallna keisaraveldi Palpatine, sem mun hafa óvæntar afleiðingar í för með sér.
Það veitir Stjörnustríðsaðdáandanum ávallt ánægju þegar vel tekst til í hlutverkavali og maður trúir 100% á leikarann í hlutverkinu. Þýski leikstjórinn Werner Herzhog leikur kúnnann og gerir það dásamlega. Þegar ég hlustaði á þennan þýska hreim varð mér strax hugsað til einhverskonar flótta-nasistaembættismanns, umkringdan Stormsveitarmönnum í veðruðum einkennisbúningum.

Boba er áhugaverður jaðarkarakter og virkar fullkomlega sem slíkur. Það er ráðgátan um hver leynist bakvið hjálminn sem gerir hann hættulegan og áhugaverðan en í hlutverki hetjunnar er þörf á því að hann taki af sér hjálminn.
Grundvallareind kvikmynda og sjónvarsþátta er leiklist og meðal helstu tóla leikarans til að skila merkingu og innihaldi til áhorfenda er svipbrigði. Með því að skella hjálmi á aðalpersónuna sem hylur allt andlit hennar er dregið stórlega úr upplifun áhorfenda, því túlkunin hefur engin blæbrigði og leikarinn getur aðeins stólað á stórar hreyfingar til að koma henni til skila.
Ef Boba Fett hefði fengið stærra hlutverk og verið sympatísk persóna í Return of the Jedi hefði George Lucas líklega aldrei hulið andlit hans. Enda fjarlægði hann hjálminn jafn oft og auðið var af Boba og Jango Fett í síðari þríleiknum þar sem hlutverk þeirra voru orðin mun veigameiri.

Við það skapast augnablik sem kallar á undrunarsvip frá hetjunni okkar, áhorfandinn þarf hinsvegar að ímynda sér hvað er að gerast bakvið grímuna. Þetta bakar því bæði vandræði fyrir áhorfandann og leikarann. Það gæti í raun hver sem er verið inni í þessum búningi og hver sem er sagt þessar línur fyrir hann, þar sem þær eru allar fluttar í mónótón. Það að fela Pascal bakvið grímu og galla er eins og að James Earl Jones, sem talaði fyrir Svarthöfða, hefði verið dubbaður upp í Svarthöfðabúninginn í gegnum allan fyrsta þríleikinn, sem augljóslega var algjör óþarfi.
Út frá dramatúrgíu þáttanna er andlitsleysið gjörsamlega misráðið. Það er verið að sóa tímanum sem áhorfendur nota í að mynda tengsl við persónuna með að hafa þennan háttinn á og vonandi fær Pascal að viðra andlitið sem fyrst og mest.

Slík hroðvirknisleg vinnubrögð gáfu því miður ekki góð fyrirheit varðandi það sem koma skyldi. Ég vonaði þó að annar þáttur yrði skárri en hann gerði því miður ekkert til að auka trú mína á hæfni höfunda þáttarins. Þáttur tvö hefur lítið með framþróun sögunnar að gera. Hann hverfist í raun um eina afhjúpun (nota bene, ótrúlega fyrirsjáanlega afhjúpun), en virkar annars sem töf á framvindunni. Hann er fullur af gjörsamlega handahófskenndum atvikum sem aðeins staðfesta það sem nú þegar var vitað, að Mandalorian er geggjaður að slást.
Það væri hægt að afsaka þetta ef tækifærið væri notað til að teikna persónur og heiminn sterkari litum. Það er því miður ekki gert og annar þáttur þar af leiðandi algjört uppfyllingarefni.

Ég fór því að velta fyrir mér hvort ég væri ekki bara gamall fúll karl með þessum aðfinnslum mínum varðandi þættina. Eftir stuttlega umhugsun komst ég þó að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Mér finnst ekki of mikið að biðja um framvindu sem nokkurnveginn gengur upp og að starfsmenn Lucasfilm hafi lágmarksþekkingu á þeim eindum sem leikið drama er gert úr. Með alla þá peninga sem settir eru í þetta verkefni ætti að vera valinn maður í hverju rúmi. Það er þó aðeins að finna í tækni og hönnunardeildinni.

Hann skrifaði þó ekki handrit þessara mynda, þau handrit sem hann hefur skrifað eru öll að gamanmyndum eins og Couple´s Retreat og The First 20 Million is Always the Hardest. Báðar eru þessar myndir með eldrauða meðaleinkunn á vefsíðunni Metacritic, sem safnar saman skrifum helstu gagnrýnenda. Ég spyr mig því hvort eðlilegt sé að maður sem skrifaði handrit að svo ótrúlega vesælum myndum eigi að fá upp í hendurnar að vera aðalhöfundur The Mandalorian, burtséð frá því að hann hafi leikstýrt Iron Man.
Það eru ákveðnir hlutir í fyrsta þættinum sem fá mig til að efast um þennan ráðahag. Hinsvegar veit ég sem er, að oft er ekki allt sem sýnist í þessum bransa. Guð má vita hvaða kvaðir voru settar á herðar Jon Favreau áður en hann byrjaði að skrifa þættina. Það eru sjálfsagt ótrúlega margir kokkar í þessu Star Wars eldhúsi og kannski er hann að gera kraftaverk með það sem hann hefur úr að moða. En eitthvert verður skuldin að fara og verður Favreau að sætta sig við að greiða hana sem skapari og aðalhöfundur.

Niðurstaða
Tvær og hálf stjarna. Að gera heila þáttaröð um mann sem aldrei sýnir á sér andlitið er hreinlega ekki góð hugmynd og eftir tvo þætti höfum við enn ekki fengið að sjá framan í hann. Hingað til hef ég að mestu upplifað vonbrigði við áhorfið og vætingastuðullinn því á hraðri niðurleið. Ég mun samt horfa á hvern einasta þátt af The Mandalorian um leið og hægt er, alltaf jafn spenntur en geri aðeins minni kröfur.Mig grunar að þetta sé líkt og með fíkniefnin, að fyrsta víman sé best, svo eyðirðu restinni af tímanum í að elta sömu upplifun, sem þó aldrei kemur (ekki að ég hafi persónulega reynslu af því. Ég var bara heima að horfa á Star Wars og ekki að taka þátt gjálífinu). Ég lifi þó í voninni og bíð spenntur eftir næsta skammti.
Hægt er að hlýða á umræður um The Mandalorian úr síðasta þætti Stjörnubíós hér fyrir neðan. Þar tók Heiðar Sumarliðason á móti rithöfundinum Snæbirni Brynjarssyni og handritshöfundinum Hrafnkeli Stefánssyni.