Íslenska kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur í leikstjórn Hlyns Pálmasonar hlaut í gærkvöldi aðalverðlaun Norrænna kvikmyndadaga í Lübeck í Þýskalandi.
Mikill fjöldi norrænna kvikmynda kepptu um verðlaunin á hátíðinni sem er sú eina sem einblínir sérstaklega á norrænar kvikmyndir ásamt myndum frá Eystrasaltslöndunum og norðurhluta Þýskalands.
Meðal þeirra mynda sem kepptu um hylli dómnefndar á hátíðinni voru íslensku kvikmyndirnar Héraðið og Bergmál, ásamt dönsku myndinni Queen of Hearts sem hlaut í síðustu viku Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
Aðalverðlaunum hátíðarinnar fylgdu 12.500 evrur eða um 1,7 milljónir íslenskra króna í verðlaunafé. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar.
Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson hlaut einnig verðlaun á hátíðinni sem nefnast The Interfilm Church Prize.
Hvítur, hvítur dagur er ekki fyrsta íslenska kvikmyndin til að hljóta umrædd verðlaun. Kvikmyndirnar Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson, Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, Vonarstræti eftir Baldvin Z og Hin Helgu Vé eftir Hrafn Gunnlaugsson hafa áður hlotið sama heiður.
