Körfubolti

Blikar slógu ÍR úr bikarnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Breiðablik vann sterkan sigur á ÍR-ingum í bikarnum í dag
Breiðablik vann sterkan sigur á ÍR-ingum í bikarnum í dag Vísir/Daníel
Grindavík, Sindri, Njarðvík, Þór Akureyri og Breiðablik eru komin áfram í aðra umferð Geysisbikars karla.

Það urðu ein óvænt úrslit í Geysisbikarnum í dag og komu þau í Smáranum í Kópavogi. Þar tóku heimamenn í Breiðabliki, sem féllu úr Domino's deild karla síðasta vor, á móti ÍR. ÍR kom inn í þennan leik með sigur á Íslandsmeisturum KR á bakinu.

Blikar byrjuðu leikinn betur og þeir voru 53-43 yfir í hálfleik. Breiðhyltingar áttu hins vegar ágætan þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í þrjú stig fyrir síðasta fjórðunginn.

Þar ákváðu Blikar að fara í þristasýningu og settu hvern þristinn niður á fætur öðrum og fóru með 94-86 sigur.

Hin úrvalsdeildarliðin sem voru í eldlínunni í dag fóru hins vegar öll nokkuð þægilega áfram.

Grindavík vann 96-77 sigur á 1. deildar liði Hamars og Njarðvík vann þægilegan 68-81 sigur á Hetti á Egilsstöðum. Þá fór Þór Akureyri létt með Snæfell 92-70.

Þá hafði Sindri betur gegn Skallagrími í Borgarnesi í slag 1. deildarliða. Lokatölur þar urðu 80-71.

Liðin bætast í hóp með Álftanesi og Reyni Sandgerði í annarri umferðinni, en þau komust áfram á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×