Egill er gestur vikunnar í Einkalífinu. Egill og Jökull Vilhjálmsson viðskiptafélagi hans ákváðu að leggja allt undir og stofna fyrirtækið Suitup Reykjavik árið 2014.
Fyrir nokkrum árum birtu þeir mynd af Hafþóri Júlíusi Björnssyni í jakkafötum frá Suitup á Facebook og stóðu þeir Egill og Jökull sitthvoru megin við hann. Báðir voru þeir smekklega klæddir en það sem vakti sérstaka athygli var að þeir voru ekki í sokkum.
„Við fengum hita, ekki spurning,“ segir Egill.
„Athugasemdakerfið fór á hliðina. Þetta er einhvern veginn eitthvað sem ég hef aldrei skilið. Hvernig fólk getur haft svona ótrúlega mikla skoðun á þessu. Þetta sjokkeraði einhverja og voru rosalega margir Game of Thrones aðdáendur frá Bandaríkjunum. Svo lengi sem hitastigið er rétt yfir tíu gráður þá er ég ekki í sokkum.“
