Leikjavísir

Minecraft Earth opnaður fyrst á Íslandi og Nýja Sjálandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Mojang
Áhugasömum Íslendingum hefur nú verið veittur aðgangur að leiknum Minecraft Earth frá Mojang. Eðli málsins samkvæmt byggir leikurinn á hinum gífurlega vinsæla leik, Minecraft. Spilarar munu geta byggt hluti í raunheimum í gegnum síma sína. Um er að ræða svokallaða Early Access útgáfu, sem felur í sér að leikurinn er í raun ekki tilbúinn að fullu.

Leikurinn var fyrst opnaður á Íslandi og Nýja Sjálandi. Til stendur að opna hann í fleiri löndum á næstunni.

Í stuttu máli sagt geta notendur byggt hinar ýmsu byggingar á skrifborðum sínum eða í bakgörðum. Undirritaður var til dæmis að byggja þennan dýrðarinnar garð á skrifborði sínu. Þar hef ég komið fyrir hænum, kindum og kúm.

Fyrst þurfa spilarar þó að ganga um með símana á lofti og finna hluti til að byggja úr. Að því leyti er leikurinn ekki ósvipaður Pokémon Go, sem tröllreið öllu fyrir nokkrum árum og fólk gekk á hvort annað á víð og dreif með augun föst á símum sínum.

Í göngutúrum er einnig hægt að rekast á ýmis ævintýri og óvini sem berjast þarf við. Þar að auki er hægt að virða fyrir sér hluti sem aðrir hafa byggt.

Hægt er að nálgast leikinn á Google Play eða Apple Store.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.