Þetta var fjórði stórsigur Bayern á liði frá Norður-Lundúnum í röð. Í síðustu fjórum leikjum gegn Tottenham og Arsenal hefur Bayern skorað 22 mörk.
Bayern og Arsenal mættust í riðlakeppni Meistaradeildarinnar 2015-16. Arsenal vann fyrri leikinn á Emirates, 2-0, en Bayern svaraði fyrir sig með 5-1 sigri í seinni leiknum á Allianz Arena í München.
Liðin mættust aftur í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar 2016-17. Bayern átti ekki í neinum vandræðum með Arsenal og vann báða leikina, 5-1, og einvígið, 10-2 samanlagt.
Í gær sýndi Bayern svo Tottenham enga miskunn og rústaði silfurliði Meistaradeildarinnar frá síðasta tímabili, 2-7. Bayern er með fullt hús stiga í B-riðli en Tottenham aðeins eitt.
Bayern og Tottenham mætast aftur í lokaumferð riðlakeppninnar á Allianz Arena 11. desember næstkomandi.
Robert Lewandowski hefur haft sérlega gaman að því að mæta Norður-Lundúnaliðunum. Pólverjinn hefur skorað í síðustu fjórum leikjum sínum gegn Arsenal og Tottenham, alls fimm mörk. Gnabry hefur skorað fjögur mörk og Thomas Müller og Arjen Robben þrjú mörk hvor.
Bayern 5-1 Arsenal 2015
Bayern 5-1 Arsenal 2017
Arsenal 1-5 Bayern 2017
Tottenham 2-7 Bayern