Enski boltinn

Segir að Man. United verði ekki í vandræðum með að finna arftaka De Gea yfirgefi hann félagið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Staða David de Gea er í lausu lofti en Spánverjinn hefur leikið með United síðan 2011.
Staða David de Gea er í lausu lofti en Spánverjinn hefur leikið með United síðan 2011. vísir/getty
Edwin Van Der Sar, fyrrum markvörður Manchester United, er ekki í neinum vafa um að félagið gæti fundið góðan markvörð ákveði David de Gea að yfirgefa félagið.

Samningur De Gea við félagið rennur út næsta sumar og hann má ræða við önnur og félög frá 1. janúar. Þó bíður hans nýr samningur hjá United og talið er að vikulaunin hljóði upp á 350 þúsund pund.

„Það verður að taka ákvörðun. Þetta tekur langan tíma núna en ég er ekki stjórnarformaður Manchester United,“ sagði Hollendingurinn um stöðuna á spænska markverðinum.







„Aðrir markmenn geta fyllt skarðið. Ég var 34 þegar ég fór til United svo það eru margir möguleikar. Það eru líka aðrir markmenn í úrvalsdeildinni sem geta tekið skrefið.“

Frammistaða Spánverjans fór að dala á síðustu leiktíð og gerði hann nokkur mistök. Þau hafa haldið áfram í upphafi nýrrar leiktíðar og hann var blóraböggullinn í tapinu gegn Crystal Palace á dögunum.

„Þetta gerðist líka fyrir mig, Ryan Giggs og alla. Formið þitt er mismunandi. Hann hefur verið svo lengi á háu stigi svo á tímapunkti dalar það aðeins og fólk byrjar að skrifa. Hann verður fínn. Hann er frábær markvörður,“ sagði Van Der Sar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×