Enski boltinn

Finni tilnefndur sem besti leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni í ágúst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur gengið rosalega vel hjá Teemu Pukki í haust.
Það hefur gengið rosalega vel hjá Teemu Pukki í haust. Getty/Marc Atkins
Teemu Pukki, framherji Norwich City, er einn af þeim sem koma til greina sem besti leikmaður ágústmánaðar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en tilnefningarinnar voru gerðar opinberar í dag.

Teemu Pukki mun þar keppa við þá Sergio Aguero, Raheem Sterling og Kevin de Bruyne hjá Manchester City, Roberto Firmino hjá Liverpool og Ashley Barnes hjá Burnley.

Þeir sem koma til greina sem knattspyrnustjóri mánaðarins eru Pep Guardiola hjá Manchester City, Jürgen Klopp hjá Liverpool, Roy Hodgson hjá Crystal Palace og Brendan Rodgers hjá Leicester.





Hinn 29 ára gamli Teemu Pukki hefur skorað fimm mörk í fjórum leikjum fyrir nýliða Norwich á leiktíðinni og skoraði einnig sigurmark finnska landsliðsins á móti Grikklandi í undankeppni EM í vikunni. Pukki hefur þegar verið valinn besti leikmaður mánaðarins af áhorfendum en nú er að sjá hvort hann fái jafnmikið fylgi hjá valnefnd ensku úrvalsdeildarinnar.

Sergio Aguero er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með sex mörk og Raheem Sterling hefur skorað jafnmörg mörk og Teemu Pukki eða fimm. Kevin de Bruyne hefur aftur á móti gefið flestar stoðsendingar eða fimm talsins.

Tilnefning Roy Hodgson vekur athygli en hann er 72 ára og elsti knattspyrnustjórinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Roy Hodgson stýrði Palace til sigurs á Manchester United á Old Trafford en það hafði ekki gerst síðan 1991.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×