Enski boltinn

Gylfi skoraði og átti þátt í öðru marki er Everton fór áfram í bikarnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var fyrirliði Everton er liðið vann 4-2 sigur á C-deildarliði Lincoln á útivelli í Carabao-bikarnum á Englandi í kvöld.

Það voru ekki liðnar nema tuttugu sekúndur er Lincoln komst yfir en Everton jafnaði með stórkostlegu aukaspyrnumarki Lucas Digne af 25 metra færi.

Everton fékk svo vítaspyrnu á 59. mínútu eftir að brotið var á Morgan Schneiderlin. Gylfi fór að sjálfsögðu á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi.







Heimamenn voru ekki hættir og Bruno Andrade jafnaði metin með einkar fallegu marki á 70. mínútu en ellefu mínútum síðar kom Alex Iwobi Everton yfir með sínu fyrsta marki í bláu treyjunni.

Gylfi átti frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á varamanninn Cenk Tosun sem skallaði boltanum fyrir Iwobi sem kom boltanum í netið.

Fjórða og síðasta markið skoraði svo Brasilíumaðurinn Richarlison á 88. mínútu og lokatölur 4-2. Skyldusigur Everton.

Burnley er úr leik eftir 3-1 tap gegn Sunderland á heimavelli en sá norður írski Will Grigg var á meðal markaskorara. Jóhann Berg Guðmundsson er á meiðslalistanum.

Bournemouth þurfti vítaspyrnukeppni til þess að slá út D-deildarliðið Forest Green Rovers og Leicester sló út Newcastle í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 1-1 eftir venulegan leiktíma.

Portsmouth sló út QPR 2-0 og Swansea burstaði Cambridge United 6-0.

Úrslit kvöldsins:

Bournemouth - Forest Green Rovers 0-0 (Bournemouth áfram eftir vítaspyrnukeppni)

Burnley - Sunderland 1-3

Lincoln - Everton 2-4

Newcastle - Leicester 1-1 (Leicester áfram eftir vítaspyrnukeppni)

QPR - Portsmouth 0-2

Rotherham - Sheffield Wednesday 0-1

Swansea - Cambridge 6-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×