Veiði

Trollað fyrir lax í Lake Ontario

Karl Lúðvíksson skrifar
2 punda Chinook lax var sá einu sem náðist í bátinn.
2 punda Chinook lax var sá einu sem náðist í bátinn. Mynd: Jeremy Kwiatkowski
Tekist á við tröllvaxinn lax í Lake Ontario sem datt af færinu stutt frá bátnum.Mynd: KL
Það er alltaf gaman að prófa nýja tegund af veiði og það á engin veiðimaður að láta það framhjá sér fara að vera opin fyrir því.

Kanada er eitt af þessum löndum sem býr að gnægð af laxi og sum svæðin hafa verið byggð upp ekkert ósvipað og Rangárnar. Þar er líklega laxveiðin og regnbogasilungsveiðin í Lake Ontario vinsælust. Vatnið er gríðarlega stórt og í því er mikið af æti. Fyrir mörgum árum var sleppt í hluta af hliðaránum sem í það renna miklum fjölda af Chinook laxi, Hnúðlaxi, Regnbogasilung og Sockey laxi. Seiðin eru eins og í Rangánum alin upp í stórum sleppitjörnum og síðan sett í ánna þegar þau eru tilbúin. Þau ganga síðan í vatnið, alast þar upp í 1-3 ár, en það er nokkuð misjafnt eftir tegundum hversu lengi þau dvejla þar.

Þegar í júní eru veiðimenn við vatnið farnir að setja sig í stellingar fyrir veiði og frá miðjum júní og inní september er mikið um að vera á vatninu og oft ansi mikið af bátum við veiðar en veiði frá landi er nánast engin. Aðferðirnar eru ansi frábrugðnar því sem Íslenskir veiðimenn eiga að venjast en hér er veitt á stóra spúna og veitt á 20-50 metra dýpi. Það er trollað fyrir laxi í þessu vatni. Stórar sökkur eru tengdar við línuna með sérstökum búnaði sem sleppir línunni þegar laxinn tekur og það þarf ansi snögg viðbrögð þegar það gerist til að grípa stöngina og festa í laxinum. 

Undirritaður prófaði þessa veiði enda staddur í Kanada um þessar mundir og það verður að segjast að þetta er ekki leiðinlegt. Þú ert á bát sem siglir hægt um vatnið í góðu veðri með góðum félögum og fylgist með stöngunum. Þegar ein stöngin tekur þennan snögga kipp sem kemur þegar laxinn er kominn á er stokkið á stöngina og reynt að festa í. Það þarf ansi mikla lagni til að það takist vel og það kom í ljós að undirritaður hefur ekki þessa lagni, alla vega ekki ennþá, en það var sett í fjóra væna laxa sem stukku ansi hressilega þegar þeir voru komnir á yfirborðið en það var þá sem þeir slitu sig allir lausir. Það var alla vega tekist á við 20-30 punda laxa sem er feykna skemmtilegt og þrátt fyrir að aðeins einum litlum 2 punda Chinook hafi verið landið (sem er sá minnsti sem skipstjórinn hafði séð í sumar) er þetta klárlega eitthvað til að mæla með að prófa. Það eru margir sem gera út á þessa veiði til ferðamanna á Torontosvæðinu og verðið, svona svipað eins og einn dagur á þokkalegum tíma í laxveiði á Íslandi nema þarna er þetta verð fyrir bátinn og ca 2-3 veiðimenn. Ansi vel sloppið.






×