Sverrir Ingi Ingason sat allan tímann á varamannabekknum þegar PAOK tapaði 3-2 fyrir Ajax í seinni leik liðanna í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Ajax fékk þrjár vítaspyrnur í leiknum.
Ajax, sem fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, vann einvígið, 5-4 samanlagt, og er komið áfram í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. PAOK fer hins vegar í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Grísku meistararnir komust yfir á 23. mínútu með marki Diegos Biseswar en Serbinn Dusan Tadic, sem fór á kostum á síðasta tímabili, jafnaði fyrir Ajax úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Hann hafði klúðrað víti um miðjan fyrri hálfleik.
Nicolas Tagliafico kom hollensku meisturunum yfir á 79. mínútu og Tadic skoraði svo sitt annað mark af vítapunktinum fimm mínútum fyrir leikslok. Bisewar minnkaði muninn í 3-2 í uppbótatíma en nær komst PAOK ekki.
Celtic er úr leik eftir 3-4 tap fyrir Cluj frá Rúmeníu á Celtic Park. Fyrri leikurinn fór 1-1 og rúmensku meistararnir unnu einvígið, 5-4 samanlagt.
Noregsmeistarar Rosenborg unnu Maribor, sem sló Val úr leik í 1. umferðinni, 3-1 og vann einvígið, 6-2 samanlagt.
APOEL, Club Brugge, Dinamo Zagreb, Olympiacos, Rauða stjarnan, LASK Linz og Krasnodar eru einnig komin áfram í umspilið.
