Enski boltinn

Klopp segir að hvorki Bale né Couthinho séu að koma til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Coutinho með þeim Nacho Fernandez og Gareth Bale.
Phil Coutinho með þeim Nacho Fernandez og Gareth Bale. Vísir/Getty
Framtíð þeirra Gareth Bale og Philippe Coutinho á Spáni er í uppnámi og hafa þeir verið báðir orðaðir við ensk félög síðustu vikur og daga. Knattspyrnustjóri Liverpool lokar samt á þann möguleika að þeir endi sem leikmenn Liverpool.

Philippe Coutinho lék áður með Liverpool við góðan orðstír en vildi svo fara til Barcelona þar sem hann hefur ekki fundið sig. Gareth Bale er út í kuldanum hjá Real Madrid og Zinedine Zidane vill losna við hann. Það er hins vegar ekki auðvelt því laun Bale eru svo gríðarlega há og hann á eftir þrjú ár af samningi sínum við Real Madrid.

Paul Ince, fyrrum miðjumaður Liverpool, talaði um það í vikunni að rétta félagið fyrir Gareth Bale væri Liverpool og að Liverpool ætti að reyna að kaupa hann.

Jürgen Klopp segir að Gareth Bale myndi verða allt of dýr fyrir Liverpool. Klopp segist líka vera ánægður með leikmannahópinn sinn í dag og að hann þurfti fyrst og fremst á sterkri liðsheild að halda en ekki ákveðna einstaklinga.





Það voru örugglega ekki margir stuðningsmenn Liverpool að gera sér vonir um að fá Gareth Bale en örugglega sáu fleiri fyrir sér að Philippe Coutinho myndi snúa aftur á Anfield.

Jürgen Klopp hefur nú lokað þeim dyrum líka. „Það er eru hundrað prósent líkur á því að Phil Coutinho hjálpi öllum félögum í heimi. Þetta snýst ekki um það. Phil er frábær fótboltamaður en við þyrftum að eyða miklum peningi í að fá hann og þetta er ekki árið fyrir slíkt,“ sagði Klopp við ESPN.





„Þetta er bara ekki möguleiki. Hann myndi gera öll lið betri og ég vona virkilega að hann finni lukkuna hjá Barcelona. Við höldum sambandi en ekki þó það miklu að ég viti nákvæmlega hvernig honum líður,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×