Erlent

Samkomulag undirritað í Súdan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmæli hafa staðið yfir frá því í desember.
Mótmæli hafa staðið yfir frá því í desember. Nordicphotos/Getty
Herforingjastjórnin í Súdan, sem tók við eftir að Omar al-Bashir forseta var steypt af stóli í apríl, og mótmælendahreyfingin sem hefur mótmælt bæði al-Bashir og herforingjastjórninni, undirrituðu í gær samkomulag um deilingu valda. Tilkynnt var um samkomulagið fyrr í mánuðinum en alls óvíst hvort af undirritun yrði.

Viðræður á milli mótmælenda og herforingjastjórnarinnar sigldu í strand í júní. Að minnsta kosti 128 fórust í árásum hermanna á mótmælendur við varnarmálaráðuneytið í Kartúm, samkvæmt læknum á bandi mótmælenda. Hins vegar tókst erindrekum nágrannaríkja að miðla málum í deilunni.

Samkomulagið gengur út á að fylkingarnar tvær deili völdum í ríkinu næstu þrjú árin. Eftir það yrði kosin ný ríkisstjórn og al-Bashir-tíminn verði alfarið að baki.

Mohamed Hamdan Dagalo, varaforseti herforingjastjórnarinnar, sagðist ánægður með samkomulagið í gær og Ibrahim al-Amin, einn leiðtoga mótmælenda, sagði það marka tímamót í sögu Súdans. „Við viljum stöðugt Súdan af því við höfum þurft að þjást mikið vegna þessarar óreiðu,“ hafði Reuters eftir al-Amin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×