
Starfshópurinn kynnti sér stefnuviðmið utanríkisráðuneytisins, stefnu nágrannalanda og helstu strauma á sviði mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu í tvíhliða starfi. Rætt var við starfsfólk í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands, sérfræðinga, talsmenn mannréttinda og starfsfólk hins opinbera í samstarfslöndunum, Malaví og Úganda. Þá var rætt við þingmenn og sérfræðinga á Norðurlöndunum sem hafa langa reynslu á þessu sviði, bæði innan þróunarsamvinnuskrifstofa nágrannalandanna og við Mannréttindastofnun Danmerkur.
Í niðurstöðum starfshópsins er 21 tillaga sett fram auk tillögu að framkvæmdaáætlun. Þar segir meðal annars að Ísland eigi að vinna að umbreytandi mannréttindaverkefnum í samstarfslöndum og móta nýtt samstarf til að ná mannréttindatengdum markmiðum sínum. Enn fremur segir að mannréttindi verði lögð til grundvallar þegar íslenskt atvinnulíf er virkjað í tengslum við tvíhliða þróunarsamvinnu og að málsvarastarf verði mótað á markvissan hátt og vægi þess aukið til muna. Þá er lagt til að starfsfólk í þróunarsamvinnu fái hagnýta fræðslu um mannréttindamiðaða nálgun og hafi greiðan aðgang að sérfræðiþekkingu, tæknilegri aðstoð og verkfærakistu.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.