Enski boltinn

Segir að Coutinho sjái eftir því að hafa farið frá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho
Philippe Coutinho Getty/ Andrew Powell
Síðan að Philippe Coutinho yfirgaf Anfield hefur Liverpool komist tvisvar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og var síðan hársbreidd frá því að vinna enska titilinn í fyrsta sinn í 29 ár.

Maður sem þekkir vel til hjá Liverpool er viss um að Philippe Coutinho sjái mikið eftir því að hafa farið frá Liverpool í janúar 2018.

Philippe Coutinho vildi ólmur komast til Barcelona sem endaði með því að Liverpool seldi hann til spænska félagsins fyrir upphæð sem byrjaði í 105 milljónum punda en gæti endað í 142 milljónum punda.

Fyrsta eina og hálfa tímabil Philippe Coutinho á Nývangi hefur aftur á móti ekki verið neinn dans á rósum. Coutinho hefur verið harðlega gagnrýndur, bæði af fjölmiðlum en líka af stuðningsmönnum Barcelona.





Tom Werner, stjórnarformaður Liverpool, sagði í viðtali við Liverpool Echo að Coutinho sjái líklega eftir því að hafa farið frá Liverpool. Werner vill ráðleggja stórstjörnum Liverpool í dag um að skoða sögu hans Coutinho.

Eins og áður þá eru stóru stjörnur Liverpool liðsins stanslaust orðaðir við spænsku stórliðin. Það er ekkert nýtt en Liverpool hefur á síðustu árum selt bæði Luis Suarez og Philippe Coutinho til Barcelona. Þetta gekk upp hjá Suarez en sömu sögu er ekki að segja af Coutinho.

„Ég vil bara benda á sögu Philippe Coutinho. Ég hef ekkert nema gott að segja um Philippe. Ég tel að hann hafi yfirgefið Liverpool af því að hann vildi spila fyrir annað af risafélögunum á Spáni,“ sagði Tom Werner.

Werner segir að Coutinho hafi átt að trúa á það að Liverpool væri að verða eitt af stóru klúbbunum í Evrópu á nýjan leik.





„Við reyndum að sannfæra hann um að félagið okkar væri á réttri leið og hann fengi að upplifa stóra leiki í Meistaradeildinni ef hann yrði áfram. Ég held að hann sjái líklega eftir þessari ákvörðun sinni,“ sagði Warner.

Philippe Coutinho hefur skorað 13 mörk í 51 deildarleik með Barcelona en var með 41 deildarmark í 152 leikjum með Liverpool. Hann var lánaður til Spánar tímabilið 2011-12 og skoraði þá 5 mörk í 16 leikjum með Espanyol.

Philippe Coutinho er að öllum líkindum á förum frá Barcelona en það eru ekki öll félög sem eru tilbúin að borga launin hans.

Mestar líkur eru þó að hann fari aftur til Englands þar sem hann spilaði mjög vel með Liverpool liðinu. Chelsea er nýjasta félagið sem er sagt hafa mikinn áhuga á brasilíska landsliðsmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×