Íslenskir fjölmiðlamenn og Hatara-hópurinn dvelur á Dan Panoram hótelinu við ströndina í Tel Aviv og eru flestir mættir á svæðið. Í Júrógarðinum í dag er rætt við þá Bendikt Bóas Hinriksson og Ingólf Grétarsson frá Fréttablaðinu.
Ferðalagið til Tel Aviv tekur yfir 15 klukkustundir með millilendingu og fór það ekki neitt sérstaklega vel í fjölmiðlamenn frá eyjunni fögru.
Menn eru samt sem áður klárir í slaginn en á sama tíma svekktir að hafa misst af BDSM-teiti sem Hatarahópurinn fór í gærkvöldi.
Nauðsynlegt var að klæðast einhverju kinkí og var auðvelt fyrir liðsmenn Hatara að græja það. Það var aftur á móti erfiðara fyrir aðra í hópnum sem urðu að grípa til sinna ráða eins og fram kemur í fyrsta Júrógarðsþættinum frá Tel Aviv.
Á morgun verður opnunarhátíð Eurovision og þá mun íslenski hópurinn meðal annars ganga appelsínugula dregilinn og ræða við fjölmiðlamenn en athygli á atriði Íslands hér úti er gríðarleg.
Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis verður með ítarlega umfjöllun frá Eurovision í Tel Aviv næstu daga. Fréttamaðurinn Stefán Árni Pálsson sér um vefþáttinn Júrógarðinn og aðra umfjöllun hér á Vísi og í fréttum Stöðvar 2 á hverjum degi í gegnum alla keppnina. Júrógarðurinn er í boði Domino´s.