Söngkonan Madonna kemur fram á Eurovision í Tel Aviv í kvöld. Tilkynnt hefur verið að hún muni flytja tvö lög en ekki lá ljóst fyrir fyrr en á fimmtudaginn að Madonna kom fram vegna ágreinings hennar við skipuleggjendur.
Madonna kom ekki fram á dómararennslinu í dag og svo virðist sem framkoma hennar í kvöld verði að mestu takmörkuð við lögin tvö sem hún flytur.
Það er óhætt að segja að álagið á hópana sem koma að lögunum 26 sem keppa í kvöld sé mikið. Hópárnir voru í keppnishöllinni frá því upp úr hádegi í gær og komnir aftur á hótelið um klukkan tvö í nótt eftir dómararennslið.
Hatari lagði svo af stað upp í keppnishöllina klukkan 12:15 að Tel Aviv tíma, 9:15 að íslenskum tíma.
Lokaæfingu framlaganna 26 er lokið hér í Expo Tel Aviv höllinni og fjórir og hálfur tími í að úrslitakvöldið hefst. Þangað til er lítill tími til að slaka á.
Atriðin fara í smink og svo er upptaka á viðtali við Madonnu í græna herberginu. Samvkæmt heimildum Vísis er ætlast til þess að allir keppendur þjóðanna 26 sitji í bakgrunninum á meðan viðtalið við bandarísku söngkonuna er tekið.
Það er greinilegt að það á að sjá til þess að viðtalið við Madonnu komi vel út en á móti geta keppendurnir 26 ekki hvílt sig og slakað á, eins og þeir myndu væntanlega flestir vilja.
Úrslitakvöldið sjálft hefst klukkan 22 að staðartíma eða klukkan 19 að íslenskum tíma.
Í blaðamannahöllinni hér í Tel Aviv er hægt að fylgjast með æfingu kynna keppninnar fyrir kvöldið á sjónvarpsskjám. Þau voru rétt í þessu að æfa kynningu sína fyrir mómentið þegar Madonna stígur á svið.
