Fótbolti

Eiður Smári einn af tímamótamarkamönnum Barcelona í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðpjohnsen og Lionel Messi á tíma Eiðs hjá Barcelona.
Eiður Smári Guðpjohnsen og Lionel Messi á tíma Eiðs hjá Barcelona. Getty/Denis Doyle
Luis Suárez skoraði í gær fimm hundruðasta mark Barcelona í Meistaradeildinni þegar hann kom Barca í 1-0 í undanúrslitaleiknum á móti Liverpool.

Luis Suárez hafði áður skorað fjögurhundruðasta mark Barcelona í Meistaradeildinni fyrir rétt rúmum fjórum árum.

Það eru alls fjórir leikmenn Barcelona sem hafa náð að skora svona tímamótamark fyrir félagið í Meistaradeildinni og við Íslendingar könnumst mjög vel við einn.

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði nefnilega tvöhundruðasta mark Barcelona í Meistaradeildinni 31. október 2006 þegar hann skoraði á móti sínum gömlu félögum í Chelsea.

Eiður er í úrvalshópi með þeim Rivaldo. Lionel Messi og Luis Suárez. Ekki slæmur klúbbur þar á ferðinni.





Eiður Smári skoraði alls 3 mörk í 20 leikjum með Barcelona í Meistaradeildinni og þá var hann áður búinn að skora 4 mörk í 25 leikjum með Chelsea í Meistaradeildinni.

Eiður Smári var í liði Barcelona sem vann Meistaradeildina árið 2009 en hann náði ekki að skora í Meistaradeildinni þá leiktíð en lagði upp tvö mörk í fjórum leikjum. Eiður var síðan ónotaður varamaður í úrslitaleiknum á móti Manchester United.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×