Erlent

Suður-Afríkumenn velja sér nýtt þing

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá kjörstað í Suður-Afríku í gær. Ekki er búist við því að niðurstöður úr kosningunum liggi fyrir fyrr en um helgina.
Frá kjörstað í Suður-Afríku í gær. Ekki er búist við því að niðurstöður úr kosningunum liggi fyrir fyrr en um helgina. Nordicphotos/AFP
Þingkosningar fóru fram í Suður-Afríku í gær. Niðurstöður lágu ekki fyrir þegar Fréttablaðið fór í prentun. Það munu þær líklegast ekki gera fyrr en um helgina, að því er Reuters hafði eftir suðurafrískum embættismönnum í gær.

Kosningarnar koma í kjölfar afsagnar Jacobs Zuma forseta. Zuma neyddist til að segja af sér í febrúar á síðasta ári vegna þrýstings innan flokks síns, Afríska þjóðarráðsins (ANC). Hann hafði verið ákærður fyrir spillingu og átti von á vantrausti á þingi.

Cyril Ramaphosa tók við af Zuma, jafnt sem forseti og leiðtogi ANC. Hann leiddi flokkinn í kosningum gærdagsins og miðað við skoðanakannanir verður að teljast líklegt að hann hafi unnið stórsigur.

Könnun IRR frá því í lok apríl sýndi ANC með 49,5 prósenta stuðning og könnun Ipsos frá því viku fyrr sýndi ANC með 56,9 prósent. Stuðningurinn hafði verið álíka mikill mánuðina á undan. Til samanburðar hafði Lýðræðisbandalagið (DA), undir forystu Mmusi Maimane, 21,3 prósent í könnun IRR og 15,2 hjá Ipsos. Hagfrelsishreyfingin (EFF), undir forystu Julius Malema, hafði 14,9 hjá IRR, 9,5 hjá Ipsos.

Þessar niðurstöður yrðu þær lökustu í sögu Afríska þjóðarráðsins allt frá því að flokkurinn bauð fyrst fram með Nelson Mandela í fararbroddi árið 1994. Þá fékk þjóðarráðið 62,65 prósent en í síðustu kosningum, undir forystu Zuma, fékk flokkurinn 62,15 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×