Enski boltinn

Stjóri Arsenal seldi Lucas Moura til Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucas Moura fagnar sigri Tottenham í gærkvöldi.
Lucas Moura fagnar sigri Tottenham í gærkvöldi. Getty/Matthew Ashton
Lucas Moura er stærsta stjarna Tottenham liðsins í dag eftir þrennu sína í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi. Það vita færri hvaða stjóri leyfði honum að fara til Tottenham fyrir aðeins einu og hálfu ári síðan.

Brasilíumaðurinn Lucas Moura sá til þess að Tottenham fór áfram á fleiri mörkum skoruðu á útivelli eftir að hafa lent um tíma 3-0 undir á móti Ajax.

Lucas Moura skoraði þrennu í seinni hálfleiknum þar á meðal sigurmarkið í uppbótatíma þegar allir héldu að Ajax væri að landa farseðli í úrslitaleikinn í Madrid.





Lucas Moura er á sínu fyrsta heila tímabili hjá Tottenham sem keypti hann frá Paris Saint-Germain í lok janúarmánaðar 2018. Hann er síðasti leikmaðurinn sem Tottenham keypti en ekkert hefur verið að frétta af Tottenham í síðustu tveimur félagsskiptagluggum.

Tottenham borgaði Paris Saint-Germain um það bil 25 milljónir punda fyrir Brassann en stjóri PSG var þá Unai Emery, núverandi stjóri Arsenal.

Lucas Moura hafði þá aðeins spilað sjö leiki og skoraði eitt mark á hálfu tímabili með Paris Saint-Germain. Hann hafði spilað með franska félaginu frá 2012 en Unai Emery hafdði ekki lengur not fyrir hann.

Unai Emery hætti síðan sem stjóri Parísarliðsins um vorið og tók við Arsenal um sumarið.

Lucas Moura fékk ekki mörg tækifæri á síðasta tímabili en hefur slegið í gegn með Tottenham í vetur. Hann hefur nú skorað 15 mörk í öllum keppnum, tíu í ensku úrvalsdeildinni og fimm í Meistaradeildinni.

Lucas Moura er líka kominn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eða þangað sem Paris Saint-Germain eða Unai Emery hafa aldrei komist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×