Bíó og sjónvarp

Afkomendur Tolkiens afneita nýrri mynd

Birgir Olgeirsson skrifar
Nicolas Hoult sem JRR Tolkien.
Nicolas Hoult sem JRR Tolkien. IMDB
Afkomendur JRR Tolkien hafa afneitað nýrri leikinni kvikmynd um yngri ár þessa breska rithöfundar. Myndin skartar Nicholas Hoult sem Tolkien og á að segja frá því hvar hann fékk innblástur sinn fyrir sögurnar úr Miðagarði, en þekktustu verk Tolkiens eru Hobbitinn og Hringadróttinssaga sem gerast þar. 

Í dag barst stuttorð yfirlýsing frá dánarbúi Tolkiens og fjölskyldu hans þar sem því er lýst yfir að þau séu alls ekki samþykk myndinni, hafi ekki gefið leyfi fyrir henni og að þau muni ekki á nokkurn hátt lýsa yfir stuðningi við verkefnið. 

Talsmaður dánarbúsins sagði við breska dagblaðið The Guardian að yfirlýsingunni sé ætla að sýna fram á afstöðu til myndarinnar, fremur en að vera einhverskonar undanfari lögsóknar. 

Höfundur ævisögunnar Tolkien and the Great War, John Garth, sagði í samtali við Guardian að yfirlýsing dánarbúsins og fjölskyldu Tolkiens væri skiljanleg. Sagði hann að þeir sem riti ævisögur taki sér oft skáldaleyfi til að skerpa á framgangi sögunnar og það eigi við í þessu tilviki. 

Ef fengist hefði stuðningur frá aðstandendum Tolkiens hefði það veitt skáldskapnum trúverðugleika.

Dánarbú Tolkiens hefur varið arfleið hans nokkuð örugglega í gegnum árin. Árið 2011 höfðaði dánarbúið mál vegna skáldsögu þar sem aðalsöguhetjan bar nafn Tolkiens. Það gerðist nokkrum mánuðum eftir að dánarbúið hafði samið við kvikmyndaver um höfundaréttargjöld vegna kvikmynda um Hringadróttinssögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.