Hljómsveitin Hatari, fulltrúi Íslands í Eurovision í ár, tilkynnir á síðunni Icelandic Music News að þeir ætli ekki að taka þátt í keppninni í ár. Síðan, sem kom fram á sjónarsviðið fyrr á árinu, virðist vera á vegum hljómsveitarinnar þar sem einungis eru að finna fréttir um sveitina sjálfa. Athygli vekur að tilkynningin kemur í dag, þann 1. apríl.
Á síðunni segir að hljómsveitin hafi tekið þessa ákvörðun eftir að samtökin Shurat HaDin mótmæltu þátttöku sveitarinnar en samtökin, sem eru nokkuð umdeild, segjast berjast fyrir réttindum fórnarlamba hryðjuverkaárása í Ísrael. Þau kölluðu eftir því að innanríkisráðherra Ísrael myndi koma í veg fyrir þátttöku Hatara eftir að hljómsveitin sagðist styðja sniðgöngu á keppninni.
Þá kemur einnig fram að meðlimir hljómsveitarinnar hafi sagt keppnina eiga að standa fyrir frið og samheldni en það hafi skotið skökku við að halda slíka keppni í landi sem eigi í átökum.
Í samtali við fréttastofu sagðist Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, ekki hafa heyrt af þessum áformum þegar blaðamaður hafði samband við hann. Hann vissi ekki annað en að Hatari myndi taka þátt í keppninni líkt og stæði til. Ekki náðist í meðlimi Hatara við vinnslu þessarar fréttar.
Hatari með síðasta aprílgabb dagsins?

Tengdar fréttir

Þekktasta Eurovision-bloggsíðan greinir framlag Íslands í keppninni
Wiwi-bloggs er án efa þekktasta bloggsíðan þegar kemur að Eurovision.

Hatari í viðtali við Independent: „Við erum bleiki fíllinn í herberginu“
Hljómsveitin Hatari vann Söngvakeppni Sjónvarpsins í byrjun mánaðarins en sveitin hafði betur gegn Friðriki Ómari í einvígi í úrslitum. Hatari verður því fulltrúi Íslands í Ísrael í maí.

Sómasamningur Hatara komi í veg fyrir skilaboð á sviðinu
"Ég er í rútunni og er á leiðinni aftur upp á hótel. Við vorum að skoða keppnishöllina,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision hópsins, en hann er nú staddur í Tel Aviv.