Arnór Ingvi Traustason skoraði mark Malmö sem tapaði 3-1 fyrir Sundsvall á útivelli í 2. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.
Arnór var í byrjunarliði Malmö og hann jafnaði í 1-1 á 79. mínútu. Aðeins mínútu síðar komst Sundsvall aftur yfir og heimamenn bættu svo öðru marki við á 86. mínútu og gulltryggðu sigurinn. Malmö er aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína í sænsku deildinni.
Andri Rúnar Bjarnason var í byrjunarliði Helsingborg sem laut í lægra haldi fyrir Häcken, 2-1. Andri Rúnar fór meiddur af velli á 33. mínútu. Nýliðar Helsingborg eru með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp mark Vendsyssel sem gerði 1-1 jafntefli við Randers á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni.
Jón Dagur var tekinn af velli þegar 16 mínútur voru eftir. Hann hefur skorað þrjú mörk og gefið þrjár stoðsendingar í dönsku deildinni á tímabilinu.

