Veiði

Sporðaköst væntanleg á Stöð 2 í apríl

Karl Lúðvíksson skrifar
Við tökur á Sporðaköstum í fyrrasumar.
Við tökur á Sporðaköstum í fyrrasumar. Mynd: Eggert Skúlason
Veiðimenn eiga svo sannarlega von á góðu í apríl þegar ný sería af Sporðaköstum verður sýnd á Stöð 2 eftir 20 ára hlé.

Eggert Skúlason er maðurinn á bak við Sporðaköst og óhætt er að segja að hann sé kóngurinn í framleiðslu veiðiþátta fyrir sjónvarp á Íslandi. Við náðum tali af Eggert og spurðum hann hvað rak hann áfram í að gera nýja seríu eftir 20 ára hlé. "Það voru komin þessi 20 ár frá því ég gerði síðustu seríu og ég hef lengi verið hvattur til að gera fleiri þætti en tíminn hefur bara ekki verið réttur. Síðan í fyrra kom svona augnablik þar sem ég fann aftur þörf og ástríðu fyrir því að mynda veiðina og þá var ekkert aftur snúið" segir Eggert í samtali við Veiðivísi.

Í væntanlegum þáttum í nýju seríunni var meðal annars veiddur vorlax í Miðfirði, ránbleikjur í Hafralóni, ágústveiði í Laxá í Dölum, bleikja og urriða í Köldukvísl og svo var markmið að veiða 20 punda lax í Víðidalsá, en það var líklega valið vitlaust ár til að ná því markmiði, og lokaþátturinn er svo í Selá í Vesturdalsá en þar er veitt með James Ratcliffe.

"Það verður að segjast eins og er að það er alveg smá sviðsskrekkur við að skila þessum þáttum frá mér en það sem gerir þættina samt betri en alla aðra veiðiþætti sem ég hef gert er að það hefur aldrei veiðst jafn mikið af fiski og í þesssari seríu" segir Eggert Skúlason.

Á allra næstu dögum munu síðan 22 gamlir Sporðakastaþættir koma inn á Stöð 2 Maraþon. Þessir þættir voru teknir upp á árunum 1993 - 1999. Þættirnir voru á sínum tíma sýndir á Stöð 2 og hluti af þeim var gefinn út á VHS - spólum. Eitthvað af þessu efni hefur verið hægt að nálgast á Youtube eða einhverjum deilingarsíðum en í ákaflega misjöfnum gæðum. Þessir þættir eru í eins góðum gæðum og tækni á síðustu öld leyfir. Þegar þeir verða komnir í sýningu verður farið yfir þættina á Facebooksíðu Sporðakasta og þar verður fjallað um hvaða efni þetta er og hverjir koma við sögu. Skemmtileg upphitun fyrir nýja seríu af Sporðaköstum sem hefst 16. apríl á Stöð 2. Þú getur skoðað sýnishorn af þáttunum hér.

 






×