Erla er meðal viðmælenda í 3. þætti af Viltu í alvöru deyja á Stöð 2 annað kvöld. Lóa Pind fylgir Erlu í jarðarför föður síns og er viðstödd þegar Erla rýfur innsiglið að íbúð hans, þar sem enn eru ummerki um sjálfsvíg pabba hennar. Í myndbrotinu sem hér fylgir sést Erla skoða sig um í íbúðinni og opna tölvu föður síns, full kvíða yfir því hvað þar gæti leynst, enda fengið orðljótar sendingar frá honum síðustu árin.
Þriðji þáttur af fjórum í þáttaröðinni “Viltu í alvöru deyja?” er á dagskrá Stöðvar 2 kl. 20:40, annað kvöld, sunnudag. Þar er rætt við Erlu og aðra aðstandendur fólks sem hefur svipt sig lífi, einnig er rætt við hljómsveitina Dimmu. Leikstjórn og handrit er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, myndatökumaður er Ívar Kristján Ívarsson og klippingu annaðist Ólafur Þór Chelbat.
Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum:
Hringdu í Hjálparsíma Rauða krossins: 1717 - opið allan sólarhringinn
Talaðu við netspjall Rauða krossins á raudikrossinn.is
Eða pantaðu tíma hjá Pieta samtökunum: pieta.is