Ástralski kardínálinn George Pell hefur verið fundinn sekur um kynferðisbrot gegn ungum drengjum en Pell er sá hæst setti innan kaþólsku kirkjunnar á heimsvísu sem fengið hefur slíkan dóm.
Pell er sagður hafa misnotað tvo kórdrengi í Dómkirkjunni í Melbourne árið 1996 en kardínálinn hefur neitað sök.
Kviðdómur komst þó að þeirri niðurstöðu að hann væri sekur og á morgun hefjast réttarhöld þar sem refsing hans verður ákveðin. Raunar var Pell sakfelldur í desember síðastliðnum, en vegna lagaákvæða var ekki hægt að greina frá dóminum fyrr en nú.
Hinn 77 ára Pell var ekki aðeins kardínáli í Ástralíu heldur gegndi hann stöðu fjármálaráðherra Páfagarðs, sem er ein mesta valdastaðan innan kaþólsku kirkjunnar.
Rétta þurfti tvívegis yfir honum í fyrra því kviðdómur komst ekki að niðurstöðu í fyrra skiptið.
