Maruv fékk lang flest atkvæði í úrslitum forkeppninnar í Úkraínu en ríkissjónvarpið þar í landi sagði það ekki sjálfkrafa gera hana að fulltrúa landsins í Eurovision. Fyrst þyrfti Maruv að undirrita samning þar sem á hana yrðu lagðar skyldur sem fulltrúa Úkraínu í keppninni.
Samningurinn kveður meðal annars á um að sá sem keppir fyrir hönd Úkraínu í Eurovision sé ekki aðeins flytjandi lags heldur einnig sendifulltrúi landsins og þurfi því kynna land og þjóð og hvað hún stendur fyrir.
Maruv hafði notið mikilla vinsælda en um 6,8 milljónir hafa horft á lag hennar á YouTube. Höfðu margir gengið svo langt að spá henni sigri í Eurovision.
Menningarmálaráðherra Úkraínu sagði að föðurlandsvinir, sem eru meðvitaðir um skyldur sínar, mættu einir syngja fyrir Úkraínu í Eurovision á meðan þúsundir hafa fórnað lífi sínu fyrir þjóðina.
Í samningnum var að finna ákvæði um að Maruv myndi ekki syngja aftur á tónleikum í Rússlandi, sem hún sagðist geta sætt sig við, en hún gat ekki sætt sig við önnur ákvæði samningsins sem hún taldi vera ritskoðun.
„Ég er þegn Úkraínu, borga skatta og elska Úkraínu. Ég er hins vegar ekki tilbúin til að ávarpa fólk með slagorðum og breyta þátttöku minni í kosningabaráttu fyrir stjórnmálamenn okkar. Ég er tónlistarmaður en ekki vopn í pólitískri baráttu,“ skrifaði Maruv á Facebook sem þakkaði öllum þeim sem trúðu á hana og kusu.
Úkraínska ríkissjónvarpið tók fram í yfirlýsingu að það óttaðist klofning hjá úkraínsku þjóðinni ef Maruv yrði fyrir valinu.

Jamala var aðgangshörð við keppendur á úrslitakvöldi forkeppninnar og spurði meðal annars Maruv hvort hún teldi Krímskaga tilheyra Úkraínu eða Rússlandi. „Úkraínu, að sjálfsögðu,“ svaraði Maruv.
Í kjölfarið innlimaði Rússland Krímskaga Úkraínu en rúmlega 10 þúsund manns hafa látið lífið í átökum aðskilnaðarsinna.
Árið 2017 hélt Úkraína Eurovision og bannaði þar fulltrúa Rússa að taka þátt sökum þess að hann hafði sungið á tónleikum á Krímskaga.