Bíó og sjónvarp

Sagafilm kaupir sjónvarpsréttinn á Hilmu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á mynd eru í röð frá vinstri. Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, Ragnar Agnarsson, leikstjóri/framleiðandi hjá Sagafilm, Óskar Guðmundsson rithöfundur, Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld.
Á mynd eru í röð frá vinstri. Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, Ragnar Agnarsson, leikstjóri/framleiðandi hjá Sagafilm, Óskar Guðmundsson rithöfundur, Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld.
Sagafilm hefur tryggt sér rétt til að þróa leikna sjónvarpsþáttaröð byggða á skáldsögunni Hilmu eftir Óskar Guðmundsson. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Saga Film.

Pétur Már Ólafsson hjá Bjarti & Veröld og Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm undirrituðu í dag samning þess efnis að Sagafilm getur þróað og framleitt sjónvarpsþáttaröð byggða á þessari vinsælu skáldsögu.

„Þegar ég las Hilmu eftir Óskar Guðmundsson fannst mér sagan strax steinliggja sem sjónvarpssería. Við erum afar ánægð með að Sagafilm skuli ætla að veðja á lögreglukonuna Hilmu, hún gæti ekki verið í betri höndum og við bíðum í eftirvæntingu eftir því að sjá hana lifna á skjánum,” segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi Bjarts & Veraldar.

Hilma kom fyrst út árið 2015 og hlaut Hilma Blóðdropann árið 2016 sem besta íslenska glæpasagan og var í framhaldinu framlag til Íslands til Glerlykilsins sem besta glæpasagan á Norðurlöndunum.

„Mér og skáldsögu minni er varla sýndur meiri heiður en sá að Sagafilm ætli sér að gera sjónvarpsþætti um Hilmu. Karakterinn Hilma er mér afar kær og ég er þess fullviss að áhorfendur eigi einnig eftir að hrífast af henni, þessari kröftugu persónu sem og störfum hennar hjá rannsóknarlögreglunni,“ segir Óskar Guðmundsson, höfundur Hilmu.

Hilma fjallar um samnefnda lögreglukonu sem fær sjálfsvíg til rannsóknar. Málið tekur óvænta stefnu þegar Hilma tengir það þremur eldri dauðsföllum sem hafa verið afgreidd sem slys eða sjálfsvíg. Öll eiga þessi mál rætur að rekja til atburðar sem átti sér stað fyrir meira en tveimur áratugum. Sjálf er Hilma skyndilega komin í æsispennandi kapphlaup við tímann þegar harðsvíraður glæpamaður er fast á hæla henni.

Sagan og aðalpersóna bókarinnar smellpassar í hið kvikmyndaða form og framleiðendur Sagafilm eru mjög spenntir að sjá bókina lifna við á skjánum og telja hana jafnframt eiga góða möguleika á erlendum mörkuðum.

Hilma heillaði mig strax við fyrsta lestur en persónan sjálf er þaulhugsuð og hún er frábært mótvægi við harðan heim ofbeldis og glæpa. Sá veruleiki sem Óskar hefur skapað í bókunum um Hilmu er allt í seinn, raunsær og átakanlegur en umfram allt spennandi,“ segir Ragnar Agnarsson, leikstjóri/framleiðandi Sagafilm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.