Lífið

Vinalegasta blokkin á Íslandi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mikið fjör í Eskihlíð 10 a og b.
Mikið fjör í Eskihlíð 10 a og b.
Í þættinum Ísland í dag á föstudagskvöldið heimsótti Kjartan Atli Kjartansson blokk þar sem andinn þykir einstaklega góður. Íbúar í Eskihlíð 10 og 10a halda spurningakeppnir, grillveislur og börnin hafa meira segja ákveðið að stofna húsfélag.

„Hér hefur alltaf verið mjög fínt utanumhald. Löngu áður en ég kom hingað var sett langtímaplan um allar framkvæmdir svo það kom aldrei neitt þungt högg á íbúana, segir Stefán Pálsson, formaður húsfélags fullorðinna í blokkinni.

„Í tengslum við þetta hafa menn verið duglegir við það að vera með einhverja félagslega atburði, slá upp einhverri garðveislu í garðinum á sumrin og halda spurningakeppnir úr því að það var komið spurninganörd í húsið. Við höfum verið með pubquiz keppnir milli stigaganga og menn hafa verið að skora á nálægar blokkir.“

Linda Ósk Sigurðardóttir hefur búið í blokkinni ásamt fjölskyldu sinni síðan árið 2000. Hún tekur í sama streng og formaðurinn.

Skemmtilegar hefðir

„Í þessa blokk hefur bara flutt dásamlegt fólk. Það er auðvitað dásamlegt að búa í Hlíðunum fyrir það fyrsta og það hefur alltaf verið mikil samvinna í blokkinni og við höfum alltaf reynt að ræða málin ef það hefur komið eitthvað upp á,“ segir Linda og bætir við að það sé einnig mjög lífleg Facebook-síða í blokkinni. Eftir nokkurra ára búsetu í blokkinni þurftu Linda og fjölskylda að stækka við sig. Þau gátu ekki hugsað sér að flytja annað og biðu átekta og gripu gæsina þegar hún gafst.

„Við fluttum yfir stigaganginn, svona hálfan meter. Ég veit að þetta er mjög skrýtið en þegar maður veit hvað maður hefur og finnst gott að búa í svona sambýli og þetta var kjörið tækifæri.“

Stefán segir að skemmtilegar hefðir hafi skapast í kringum blokkina og sérstaklega í kringum jólin.

„Að morgni aðfangadags er alltaf jólaboð hjá Lindu og Gogga og allir eru velkomnir. Þar mæta jólasveinar og annað slíkt,“ segir formaðurinn. Hér að neðan má sjá umfjöllun um blokkina í Eskihlíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×