Aron Einar er tíundi gestur Einkalífisins en í þáttunum er rætt við einstaklinga sem hafa skarað fram úr á sínu sviði. Í dag er Aron giftur Kristbjörgu Jónasdóttur og á með henni tvo drengi.
Í bókinni opnar Aron sig um hluti sem hann hefur aldrei áður rætt opinberlega um. Talið barst að eiginkonunni og er hann ævinlega þakklátur fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið frá Kristbjörgu í gegnum árin.

„Það góða við hana er að hún er íþróttamanneskja sjálf og veit hvað ég er að ganga í gegnum. Ég kem svolítið inn á það í bókinni hvað hún hefur breytt hugsunarhætti mínum og persónu og einnig mér sem föður. Það er ekki bara hægt að hrósa mér fyrir mína fórn fyrir landsliðið. Hún á jafnmikinn heiður og hrós skilið fyrir það sem hún hefur fórnað fyrir mína hönd,“ segir Aron en rétt fyrir HM í Rússlandi meiddist Aron Einar og var útlitið á tímabili ekki gott.
„Hún er til dæmis með einkaþjálfun á netinu og svo meiðist ég fyrir HM og þá leggur hún því bara til hliðar því hún þarf að sjá um mig þar sem ég var rúmliggjandi. Það sýnir bara hvað maður er giftur vel,“ segir Aron en Kristbjörg tók einnig mataræðið hjá landsliðsfyrirliðanum í gegn á sínum tíma.
Hér að neðan má sjá þáttinn í heild sinni en þetta er síðasti þátturinn af Einkalífinu fyrir áramót en þátturinn snýr aftur á nýju ári.