Manchester Untied gæti átt yfir höfði sér sekt frá UEFA fyrir að mæta of seint á Old Trafford fyrir leik liðsins gegn Juventus í Meistaradeild Evrópu í gær.
UEFA gerir liðum skylt að mæta á völlinn 75 mínútum áður en leikur á að hefjast. Liðsrúta United mætti um tíu mínútur eftir sjö að breskum tíma þegar leikurinn átti að hefjast klukkan 20:00.
Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem lið United mætir of seint á heimaleik, liðið var sektað af UEFA um 15 þúsund evrur í síðustu viku fyrir að koma of seint í leik liðsins við Valencia í byrjun októbermánaðar.
Þá gæti félagið einnig þurft að borga sekt fyrir það að tvisvar hlupu áhorfenddur inn á völlinn. Stuðningsmaður hljóp inn á völlinn í fyrri hálfleik og eftir að leik lauk gerðu tveir aðrir stuðningsmenn sér leið inn á völlinn.
Lögreglan í Manchester hefur staðfest að einn maður gisti í fangageymslu í nótt vegna málsins.
