Lewis Hamilton vann sinn níunda sigur á tímabilinu á sunnudaginn og hefur fyrir vikið 67 stiga forskot í keppni ökuþóra þegar aðeins fjórar keppnir eru eftir.
Sebastian Vettel á Ferrari hefur verið að bítast við Bretann í allt sumar og hafði lengi vel forskot á Bretann. En nú lítur allt út fyrir að Hamilton nái að tryggja sér sinn fimmta titil í Formúlu 1.
Rétt eins og Hamilton á Vettel að baki fjóra titla í greininni. Sá þeirra sem vinnur þann fimmta verður því svo sannarlega besti ökumaður þessarar kynslóðar.
Þjóðverjinn á enn stærðfræðilega möguleika á titli. Hamilton getur hins vegar tryggt sér titilinn í næstu keppni með sigri, svo lengi sem Vettel verður ekki annar á eftir honum.
Ferrari sökudólgur helgarinnar
Seigja má að liðið hafi svikið Vettel strax í tímatökum á laugardeginum er það sendi Þjóðverjann út á þurra brautina á regndekkjum. Fyrir vikið ræsti Sebastian áttundi af stað í kappaksturinn.
Lítið gekk hjá Vettel á sunnudaginn og var hann dottinn niður í síðasta sætið strax í byrjun keppninnar eftir samstuð við Max Verstappen. Þjóðverjanum tókst þó að lokum að keyra sig upp í sjötta sætið.
Liðsfélagi hans hjá Ferrari, Kimi Raikkonen varð fimmti og svo komu Red Bull ökuþórarnir Daniel Ricciardo og Max Verstappen.

Aðra keppnina í röð kom Lewis Hamilton í mark í fyrsta sætinu á undan liðsfélaga sínum Valtteri Bottas. Mercedes liðið hefur greinilega tekist að finna einhvern aukakraft í bílum sínum á lokametrum tímabilsins.
„Formúla 1 er liðsíþrótt, ég er svo þakklátur að vera í besta liðinu,” sagði Hamilton eftir kappaksturinn.
Bæði í byrjun tímabils og um það mitt var Ferrari liðið augljóslega með hraðari bíl í höndunum, en liðið nýtti tækifæri sín illa. Nú eru það þýsku bílarnir sem hafa hraðann og nýta sér það bæði í tímatökum og keppnum.
Kappaksturinn í Japan var ansi líflegur fyrir aftan Mercedes bílana og þá sérstaklega um miðjan pakkann. Að lokum voru það Force India bílarnir sem stóð sig best í þeim slag og komu ökumenn liðsins sjöundu og níundu í mark. Magnaður árangur hjá liði sem fór á hausinn í ágúst.
Næsta keppni fer fram í Texas fylki í Bandaríkjunum. Braut sem að Lewis Hamilton segist elska, enda er Bretinn farinn að eyða æ meiri tíma vestanhafs.
Keppnin fer fram eftir tvær vikur og ef Mercedes liðið heldur áfram á sömu braut gæti vel farið svo að Lewis verður krýndur meistari í Texas.