Allt stefndi í markalaust jafntefli er Helsingborg og Frej mættust í sænsku fyrstu deildinni í dag en markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason var á öðru máli.
Andri Rúnar tryggði sínum mönnum sigurinn með marki á fyrstu mínútu uppbótartímans en með markinu skaut hann Helsingborg á topp deildarinnar.
Andri Rúnar fór á kostum með Grindavík síðasta sumar í Pepsi-deildinni og jafnaði markametið fræga. Hann hefur haldið uppteknum hætti í Svíþjóð og er markahæsti maður fyrstu deildarinnar. Mark hans í dag var það þrettánda í deildinni.
Helsingborg hefur tveggja stiga forystu á Falkenberg á toppi deildarinnar og en liðin eru í harðri baráttu um sigurinn í deildinni.
