Fótbolti

Forseti Real Madrid hafnar þeirri hugmynd að spila leik í Bandaríkjunum

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Perez er ekki sáttur
Perez er ekki sáttur Vísir/Getty
Florentino Perez, forseti Real Madrid hafnar þeim áformum spænsku úrvalsdeildarinnar að spila einn leik á hverju tímabili í Bandaríkjunum.



Forráðamenn spænsku úrvalsdeildarinnar vilja verða fyrsta evrópska deildin til þess að spila leik í deildinni í annarri heimsálfu.



Flest allir eru ósammála þessum áformum forráðamanna deildarinnar og nú hefur forseti Real Madrid bæst við í þennan hóp.



Deildin vill halda leik Girona og Barcelona í Miami þann 26. janúar en spænska knattspyrnusambandið hefur ekki samþykkt leikinn vegna skorts á upplýsingum.



Til þess að leikurinn fari fram í Bandaríkjunum þarf að fá leyfi bæði frá spænska knattspyrnusambandinu og því bandaríska. Þá þarf einnig að fá samþykki frá UEFA og CONCACAF, knattspyrnusamböndum heimsálfanna.



„Við förum ekki til Bandaríkjanna. Ég veit ekki hvaðan þessi áhugi kemur, því það er enginn áhugi frá félögunum og stuðningsmönnunum og höfnum við þessu því alfarið,“ sagði Perez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×