Fótbolti

Allegri var boðið að taka við Real Madrid í sumar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Allegri er einkar sigursæll þjálfari.
Allegri er einkar sigursæll þjálfari. vísir/getty
Maximiliano Allegri, stjóri Juventus, hefur sagt frá því að honum hafi verið boðið að taka við spænska stórveldinu Real Madrid í sumar.

Allegri hafnaði viðræðum og í kjölfarið leituðu Madridingar til Julen Lopetegui sem þá var landsliðsþjálfari Spánar. Var hann ráðinn og hætti með látum hjá spænska landsliðinu í kjölfarið, tveimur dögum fyrir fyrsta leik liðsins á HM í Rússlandi.

„Aðalástæðan fyrir því að ég hafnaði Real Madrid þegar þeir höfðu samband var virðingin sem ég ber fyrir Juventus og sú staðreynd að ég vil standa við mín orð,“ segir Allegri.

„Mér fannst heiður að vera boðin staða hjá Real Madrid en ég sagði nei því ég var búinn að segja Andrea Agnelli, forseta Juventus, að ég yrði áfram hér.“

Í sama viðtali vildi Allegri ekki útiloka að hann hefði áhuga á að taka við Real Madrid í framtíðinni en hann hefur stýrt Juventus frá árinu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×