Sænska blaðið Expressen slær því upp í dag að rússneskt félag hafi boðið IFK Norrköping 30 milljónir sænskra króna fyrir Arnór Sigurðsson. Upphæðin gæti hækkað upp í 40 milljónir með bónusum.
30 milljónir sænskra króna eru meira en 354 milljónir í íslenskra krónum og upphæðin gætu endaði í 472 milljónir íslenskra króna.
Ef Norrköping tekur tilboðinu þá yrði Arnór dýrasti leikmaðurinn sem félagið hefur selt.
Avslöjar: IFK Norrköping överväger att sälja Arnor Sigurdsson efter ryskt jättebud. Kan gå för rekordsumma. #sillyseasonhttps://t.co/PxpIuROBYA
— Daniel Kristofferson (@DKristoffersson) August 16, 2018
Arnór er 19 ára gamall miðjumaður sem er upphaflega af Skaganum. Hann lék sjö leiki með ÍA í Pepsi-deildinni áður en hann fór út til Svíþjóðar sumarið 2016.
Arnór hefur átt mjög gott tímabil með Norrköping en hann er með þrjú mörk og þrjár stoðsensdingar í sextán leikjum í sænsku úrvalsdeildinni þar sem Norrköping liðið er eins og er í fjórða sæti.
Rússar kunna greinilega vel að meta íslenska knattspyrnumenn sem streyma núna hver á öðrum til Rússlands.
IFK Norrköping seldi á dögunum Jón Guðna Fjóluson til FC Krasnodar fyrir um fimm milljónir sænskra króna.
Fimm íslenskir leikmenn spila nú í rússnesku deildinni en það eru þeir Ragnar Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson (allir hjá Rostov), Hörður Björgvin Magnússon hjá CSKA Moskvu og Jón Guðni Fjóluson hjá Krasnodar.