Frans páfi hefur fallist á afsagnarbeiðni ástralska erkibiskupsins Philips Wilson sem var dæmdur fyrir að hafa vísvitandi haldið barnaníði leyndu.
Wilson varð í vor æðsti prestur innan raða kaþólsku kirkjunnar sem hefur hlotið slíkan dóm. Honum var gert að sök að hafa ákveðið að halda frásögnum fórnarlamba annars prests leyndum til þess að verja orðspor kirkjunnar. Hann hlaut 12 mánaða fangelsisdóm sem hann síðan áfrýjaði.
Þrátt fyrir ákall um afsögn hans úr mörgum áttum stóð Wilson fast á því að hann myndi ekki stíga af stóli fyrr en hann hefði nýtt öll lagaleg úrræði. Vatíkanið greindi hins vegar frá því í gær að páfinn hefði fallist á afsagnarbeiðni Wilsons.
