Erlent

Hvíta húsið hættir að tilkynna um símtöl Trumps og erlendra leiðtoga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump ræddi við Erdogan, forseta Tyrklands, símleiðis fyrir skömmu. Hvíta húsið greindi ekki frá símtalinu fyrr en fjallað var um það í erlendum fjölmiðlum.
Trump ræddi við Erdogan, forseta Tyrklands, símleiðis fyrir skömmu. Hvíta húsið greindi ekki frá símtalinu fyrr en fjallað var um það í erlendum fjölmiðlum. Vísir/Getty
Hvíta húsið er hætt að tilkynna opinberlega um símtöl Bandaríkjaforseta Donalds Trumps og leiðtoga erlendra ríkja. Bandaríska fréttastofan CNN hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum. Löng hefð er fyrir því að skrá yfir símtölin, og oft og tíðum innihald þeirra, sé birt.

Í frétt CNN segir að ekki sé ljóst hvort um sé að ræða tímabundna eða varanlega breytingu. Hvíta húsið hefur ekki viljað tjá sig um málið.

Þessar opinberu skrár yfir símtöl Bandaríkjaforseta og leiðtoga erlendra ríkja veita mikilvæga innsýn inn í ríkiserindrekstur æðstu embættismanna. Í mörgum tilvikum er það hvergi annars staðar skráð opinberlega að símtölin hafi átt sér stað, þó að skrárnar séu enn birtar innanhúss í Hvíta húsinu.

Sjá einnig: Trump sakar Kanadamenn um að brenna Hvíta húsið áður en Kanada var til

Trump hefur rætt við a.m.k. tvo erlenda leiðtoga í gegnum síma síðastliðnar tvær vikur: annars vegar við Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, og hins vegar við Benjamin Netanyahu, forseta Ísrael. Símtölin hafa hvergi verið skráð opinberlega en þau fengust aðeins staðfest eftir að greint var frá þeim í erlendum miðlum.

Þá hefur ekkert verið birt opinberlega um leiðtogasímtöl Trumps síðan um miðjan júní síðastliðinn, þegar forsetinn hringdi og óskaði nýkjörnum forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán, til hamingju með endurkjörið.


Tengdar fréttir

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum

Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×