Max Verstappen á Red Bull sigraði í Austurríkiskappakstrinum í Formúlu 1 í dag. Ferrari-mennirnir urðu í öðru og þriðja sæti en ökuþórar Mercedes gátu ekki lokið keppni.
Valtteri Bottas á Mercedes var á ráspól í Austurríki og liðsfélagi hans Lewis Hamilton ræsti annar. Þriðji var Kimi Raikkonen en Sebastian Vettel ræsti sjötti eftir refsingu.
Eftir fjörugan fyrsta hring var Hamilton kominn með forystuna en hann neyddist til þess að hætta keppni þegar átta hringir voru eftir vegna vélarbilunar. Bottas datt úr keppni mun fyrr, eftir aðeins 14 af 71 hring, einnig vegna bilunnar.
Með því að ná þriðja sætinu fór Vettel stigi yfir Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.
Sigur Verstappen var sá fyrsti hjá Red Bull á þeirra heimavelli í Austurríki en aðeins sá fjórði hjá Verstappen á hans ferli í Formúlu 1.

