Þetta var döpur heimsmeistarakeppni fyrir spænska landsliðið en hún var alveg skelfileg fyrir markvörð Manchester United sem var fyrir HM talinn vera einn besti markvörður heims.
Frammistaða hans á HM í Rússlandi fær eflaust marga knattspyrnuspekinga til að endurskoða það mat sitt en var hún sögulega léleg.
David de Gea hefur verið betri en enginn í marki Manchester United síðustu ár og er án vafa búinn að vera besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin tímabil. Þess vegna skilja svo fáir hvernig hann spilaði á HM í Rússlandi.
Tölfræðilega er hægt að halda því fram að David de Gea sé lélegasti markvörðurinn í sögu HM eins og sjá má í þessari staðreynd á Twitter-síðu spænska stórblaðsins Marca.
4 games.
7shots.
6goals conceded.
1save.
Not since 1966 has a goalkeeper made fewer saves in a #WorldCup.
Yet it is the record of David de Gea.https://t.co/HXWOiGU7d5pic.twitter.com/leGfopfyLU
— MARCA in English (@MARCAinENGLISH) July 2, 2018
David de Gea fékk á sig sex mörk í keppninni og varði ekki nema eitt skot. Síðan að menn fóru að halda utan um varin skot á HM árið 1966 hefur enginn markvörður varið svona fá skot í einni heimsmeistarakeppni.
Í viðbót við það þá skoruðu Rússar úr öllum fjórum vítaspyrnunum á móti honum í vítakeppninni í gær á meðan kollegi hans í rússneska markinu, Igor Akinfeev, varði tvær spyrnur Spánverja.
David de Gea varði því í raun aðeins 1 af 11 skotum sem komu á hann á HM í Rússlandi. Eitt af ellefu skotum gera 9 prósent markvörslu hjá þessum virta markverði.
