Þrátt fyrir það átti Kasper Schmeichel stórleik í marki Dana. Hann varði vítaspyrnu Luka Modric í framlengingunni og hélt þar með Dönum inn í leiknum.
Ekki er við Schmeichel að sakast að Danir hafi tapað vítaspyrnukeppninni þar sem hann gerði sér lítið fyrir og varði tvær vítaspyrnur Króata.
Myndavélunum var ítrekað beint upp í stúku þar sem faðir Kasper, Manchester United goðsögnin Peter Schmeichel, fór mikinn og var augljóslega stoltur af syninum.
Peter er einnig í miklum metum hjá dönsku þjóðinni enda átti hann stóran þátt í því að Danir skyldu vinna EM 1992 ásamt því að vera leikjahæsti landsliðsmaður Dana frá upphafi. Hann sendi löndum sínum kveðju á Twitter sem sjá má hér fyrir neðan.
Færslunni fylgir svo mynd af þeim feðgum á Old Trafford árið 1992, þá var Kasper sex ára gamall.
„Ég er orðlaus. Ég gæti ekki verið stoltari af landinu mínu, syni mínum, liðsfélögum hans, öllu starfsliðinu og okkar frábæra landsliðsþjálfara, Age Hareide. Þegar við höfum þerrað tárin munum við átta okkur á því hversu vel við gerðum," segir í færslu Peter.
Lost for words. Can't be more proud of my country, my son, his teammates, all the staff and our fantastic national coach Åge Hareide. When all the tears have dried out we will realise how well we did #WorldCup pic.twitter.com/vhGZQtDyJm
— Peter Schmeichel (@Pschmeichel1) July 2, 2018