Fótbolti

FIFA skammar sendiherra sinn Diego Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona í stúkunni á HM.
Diego Maradona í stúkunni á HM. Vísir/Getty
Þetta hefur verið erfið heimsmeistarakeppni fyrir argentinsku knattspyrnugoðsögnina Diego Maradona. Bæði liðin hans féllu úr leik í sextán liða úrslitunum og enska landsliðið er komið áfram í átta liða úrslit.

Maradona hélt að sjálfsögðu með Argentínumönnum á mótinu og upplifði tilfinningarússibana í stúkunni í leikjum liðsins en eftir að argentínska landsliðið var slegið út þá stökk hann á kólumbíska vagninn.

Ferðin hans var hinsvegar stutt því liðið var einnig slegið út í sextán liða úrslitunum.

Maradona, af öllum mönnum, hélt því síðan fram eftir Englandsleikinn að Kólumbíumenn hafi verið rændir í þessum leik sínum á móti Englandi í sextán liða úrslitunum á HM í Rússlandi.





„Ég er leiður fyrir hönd kólumbísku þjóðarinnar. Ég fagnaði marki Kólumbíu eins og ég hefði sjálfur skallað boltann í markið,“ sagði Maradona eftir leikinn.

Diego Maradona gagnrýndi harðlega frammistöðu bandaríska dómarans Mark Geiger sem gaf Kólumbíumönnum meðal annars sex af átta gulu spjöldum leiksins og gaf enska liðinu víti.

Maradona sagði meðal annars að Harry Kane hafi verið brotlegur áður en hann fiskaði vítið og gagnrýndi einnig þá ákvörðun Pierluigi Collina, yfirmanns dómaramála hjá FIFA, að láta bandaríska dómarann dæma þennan leik.

Maradona er starfandi sendiherra FIFA og hann hefur nú fengið ávítur frá sambandinu fyrir ómaklega gagrnýni sína á Geiger.

Maradona mætti á leikina á HM í boði FIFA og var hann sérstakur heiðursgestur sambandsins.

„FIFA þykir mjög leiðinlegt að lesa svona yfirlýsingar frá leikmanni sem hefur skrifað sögu okkar íþróttar,“ sagði í yfirlýsingu frá FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×