Fótbolti

Þjálfari Króata: Við stoppuðum Messi og ráðum því alveg við Kane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty
Zlatko Dalic, þjálfari Króata, hefur gert frábæra hluti með landsliðið á HM í fótbolta í Rússlandi og komið því í undanúrslitin í fyrsta sinn í tuttugu ár.

Króatía mætir Englandi í undanúrslitaleiknum á miðvikudaginn en þjálfari Króata hefur ekki áhyggjur af því að mæta markahæsta leikmanni keppninnar, Harry Kane.

Dalic talaði samt vel um enska landsliðið á blaðamannafundi og sagði ekki sjá neina augljósa veikleika hjá liðinu. Hann sagði mesta ógnina vera í þeim Harry Kane og Raheem Sterling. BBC segir frá.

„Við höfum trú á okkar styrkleikum og við erum ekki hræddir við England,“ sagði Zlatko Dalic. Hann var spurður út í Harry Kane sem hefur skorað 6 mörk á HM í Rússlandi.

„Hann [Kane] er markhæstur og það er ekki auðvelt að stoppa hann. Við erum hinsvegar með tvo topp miðverði. Okkur tókst að stoppa  [Lionel] Messi og [Christian] Eriksen og ráðum því vonandi við Kane líka,“ sagði Dalic.

„Enska liðið hefur sýnt það í sínum leikjum og það spilar beinskeyttan fótbolta og að þeir búa yfir miklum hraða. Þeir eru mjög öflugir í föstum leikatriðum og hávöxnu leikmenn þeirra eru mjög hættulegir í hornspyrnum,“ sagði Dalic.  Raheem Sterling hefur fengið á sig gagnrýni en hann fékk hrós frá króatíska þjálfaranum.

„Ég tel að Raheem Sterling sé mjög mikilvægur leikmaður fyrir enska liðið af því að hann er mjög fljótur og samvinna hans við Harry Kane skapar hættu,“ sagði Dalic.

„Þeir réðu auðveldlega við Svíana og við vitum því að við erum að fara inn í mjög erfiðan leik. Við trúm samt á okkar styrkleika og hræðumst engan, hvort sem það sé England eða eitthvað annað lið,“ sagði Dalic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×