Formúla 1

Uppgjör eftir Frakklands kappaksturinn: Góð helgi fyrir Englendinga

Bragi Þórðarson skrifar
Hamilton fagnar sigrinum.
Hamilton fagnar sigrinum. vísir/getty
Sunnudagurinn var frábær fyrir enskt íþróttaáhugafólk er Lewis Hamilton sigraði í franska kappakstrinum. Aðeins tveimur tímum fyrr slátraði enska landsliðið Panama á HM í fótbolta.

Hamilton átti frábæra helgi í Marseille, ræsti á ráspól og leiddi nánast allan kappaksturinn. Sigurinn var hans 65. á ferlinum og hefur Bretinn nú unnið á 25 mismunandi brautum, þar af öllum 23 sem keppt er á í ár.

Þrátt fyrir að enginn gat ógnað Lewis í fyrsta sætinu var kappaksturinn um helgina langt frá því að vera leiðinlegur. Stærsta ástæða þess var mikill hasar á fyrsta hring.

Mercedes bílarnir ræstu á fremstu röð og þar á eftir kom Sebastian Vettel á Ferrari, sem leiddi heimsmeistaramótið fyrir keppnina. Vettel ákvað að byrja á mýkri dekkjum en andstæðingarnir og flaug því þjóðverjinn af stað.

Á þeim 590 metrum sem eru að fyrstu beygju á Paul Ricard brautinni náði Vettel að keyra upp að hlið Valtteri Bottas á Mercedes. En þegar komið var í fyrstu beygju læsti Sebastian vinstra framhjóli og keyrði aftan á Bottas.

Fyrir vikið þurftu báðir ökumenn að fara inn á þjónustusvæðið og glopruðu niður öllum möguleikum á fyrsta sætinu.

Aðdáunarvert var þó að fylgjast með þeim keyra sig upp sætin, þá sérstaklega Vettel sem kláraði keppnina í fimmta sæti þrátt fyrir að fá refsingu fyrir að keyra aftan á Bottas.

,,Ég trúi ekki að hann hafi bara fengið fimm sekúnda refsingu fyrir þetta,” sagði Lewis Hamilton, liðsfélagi Bottas, eftir kappaksturinn. Lewis og Sebastian eru báðir að berjast um sinn fimmta heimsmeistaratitil í ár og er Bretinn nú kominn með yfirhöndina.

Pierre Gasly var í vandræðum um helginavísir/getty
Heimamenn í vandræðum

Meiri hasar varð á fyrsta hring er Pierre Gasly keyrði aftan á Esteban Occon og urðu báðir frá að hverfa. Gríðarlega svekkjandi þar sem þeir voru báðir á heimavelli í Frakklandi.

Svekkelsið varð svo meira fyrir Force India er liðsfélagi Occon, Sergio Perez, þurfti að hætta keppni á 29. hring þegar glænýja Mercedes vélin í bíl hans bilaði.

Franski kappaksturinn er einnig heimakeppni Renault. Carlos Sainz byrjaði keppnina frábærlega og var þriðji eftir hamaganginn á fyrsta hring.

Sainz gat þó ekki haldið Red Bull og Ferrari bílunum fyrir aftan sig lengi og var sjötti þegar aðeins þrír hringir voru eftir. Þá kom hinsvegar upp bilun í vélbúnaðinum sem kostaði Spánverjann tvö sæti, Carlos kláraði því í áttunda sæti á undan liðsfélaga sínum, Nico Hulkenberg, sem varð níundi.

Hinn tvítugi Max Verstappen, ökuþór Red Bull, stóð sig með prýði í franska kappakstrinum. Eftir fyrsta hring var hann kominn upp í annað sætið á kostnað Bottas og Vettel. Ungi Hollendingurinn hélt sæti sínu alla keppnina og nældi sér því í 18 stig í keppni ökumanna.

Þriðji var liðsfélagi Vettel hjá Ferrari, Kimi Raikkonen, og fjórði var Daniel Ricciardo á Red Bull. Þetta var í 25. skiptið sem Kimi lendir á verðlaunapalli án þess að sigra og eru liðnar 102 keppnir frá síðasta sigri Finnans.

Lewis Hamilton er þá aftur kominn með forystu í keppni ökuþóra og hefur 14 stiga forskot á Sebastian Vettel. Mercedes jók forskot sitt í keppni bílasmiða í 23 stig um helgina.

Næstu vikur munu ráða miklu í heimsmeistaramótinu þar sem tvær keppnir eru framundan á næstu tveimur vikum. Nú halda liðin til Austurríkis og svo þar á eftir á Silverstone brautina í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×