Heimir sat fyrir svörum ásamt Aroni Einari Gunnarssyni landsliðsfyrirliða á blaðamannafundi landsliðsins í Rostov í dag.
„Hörður Snævar, hjá Bleikt og blátt,“ sagði einn af rúmlega tuttugu fjölmiðlamönnum sem fylgt hafa íslenska liðinu eftir hvert fótmál undanfarnar tvær vikur og tveimur dögum betur.
Aron Einar var spurður út í hvernig honum gengi að ná sér eftir leikina, hvernig endurheimtin gengi. Aron Einar náði varla að koma upp orði því hann skellti endurtekið upp úr. Létt yfir mönnum og Heimir brosti líka.
Fyrir þá sem ekki vita var Bleikt og blátt erótískt tímarit sem gefið var út árum saman á Íslandi. Þótti það umdeilt ekki síst í ritstjórn Séra Davíðs Þórs Jónssonar, prests í Laugarneskirkju.

Blaðamenn hafa meðal annars kynnt sig sem fulltrúa Skinfaxa, Lögbirtingablaðsins en brandarann má mögulega rekja til kvikmyndarinnar Notting Hill, með Hugh Grant og Juliu Roberts í aðalhlutverkum.
Þar kynnir bókasalinn Hugh Grant sig sem blaðamann Horse and Hound magazine þegar á þarf að halda.
Þegar blaðamannafundinum lauk og Aron Einar og Heimir stóðu upp sagði Eyjapeyinn:
„Verðum við á forsíðunni á Bleiku og bláu?“
Salurinn hló, í það minnsta þeir sem tala íslensku.
„Ef þú ferð úr að ofan,“ svaraði Hörður Snævar.
Fyrirliðinn @ronnimall hló dátt að Bleikt og Blátt-sprellinu. pic.twitter.com/axFb3uFo54
— Sportið á Vísi (@VisirSport) June 25, 2018