Strákarnir í Sumarmessunni, sem var frumsýnd á Stöð 2 Sport í gærkvöld, ræddu mál fyrirliðans og hvort hann myndi vera í byrjunarliðinu þegar flautað verður til leiks á morgun.
„Ég tel hann vera alvöru íslenskan víking sem að verður klár í þennan leik. Hann verður klár í að byrja þennan leik og leiða liðið út í fyrsta leik okkar á HM,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, einn spekinga þáttarins.
„Jói er gamall miðjumaður og þekkir hversu gríðarlegt álag það er að spila á miðri miðjunni, ég tala nú ekki um á móti liði eins og Argentínu. Þetta er eitthvað ofurmenni ef hann klárar 90 mínútur á móti Argentínu eftir að hafa verið frá í allan þennan tíma,“ sagði Hjörvar Hafliðason og tók Jóhannes undir það, hann býst ekki við því að fyrirliðinn taki allan leikinn en taldi gríðarlega mikilvægt að hann sé í byrjunarliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson, ein skærasta stjarnan í liði sem annars er byggt á liðsheild frekar en stjörnustælum, er einnig að koma til baka eftir meiðsli. Hann er þó aðeins á undan Aroni í ferlinu og spilaði meðal annars í báðum æfingaleikjum Íslands á Laugardalsvelli í upphafi mánaðar.
„Ekki nokkrar áhyggjur af honum,“ sagði Jóhannes Karl. „Hann sýndi okkur það í æfingaleikjunum að hann er klár í slaginn og rúmlega það, virðist bara vera nokkuð ferskur.“
„Okkar besti leikmaður og skiptir okkur miklu máli, ég held að hann sé klár í slaginn.“
Ísland mætir Argentínu á Spartak vellinum í Moskvu á morgun, laugardaginn 16. júní, klukkan 13:00 að íslenskum tíma og verður hann í beinni textalýsingu hér á Vísi.