Alfreð Finnbogason var að vonum ánægður eftir jafntefli Íslands gegn Argentínu í fyrsta leik Íslands á HM en Alfreð skoraði mark Íslendinga í leiknum.
Alfreð sagði augnablikið þegar boltinn fór í netið draumi líkast.
„Það var mjög sætt vægt til orða tekið, í rauninni augnablik sem er gert úr draumi, skemmtilegt að skora fyrsta mark Íslands á HM.“
Íslensku leikmennirnir vörðust vel allan leikinn og reyndi mikið á vörnina, sérstaklega í seinni hálfleiknum og segir Alfreð að þeir hafi haldið sér við sín einkenni.
„Ekki spurning, vorum með okkar einkenni á hreinu, verjast þétt og vera með gott skipulag og við einfaldlega gerðum það erfitt fyrir Argentínu að spila gegn okkur. Við áttum fleiri möguleika í fyrri hálfleiknum, í seinni vorum við meira og minna í vörn.“
Næsti leikur Íslands er gegn Nígeríu næstkomandi föstudag en seinni leikur D-riðils fer fram klukkan 18:00 í kvöld, en það er viðureign Nígeríu og Króatíu.
Alfreð: Augnablikið var draumi líkast

Tengdar fréttir

Umfjöllun: Argentína - Ísland 1-1 | Ekki einu sinni Messi gat unnið strákana okkar
Alfreð Finnbogason skoraði fyrsta mark Íslands á HM í fótbolta og Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu frá Lionel Messi. Niðurstaðan stórkostlegt stig í Moskvu.

Heimir: Ekki skömm að tapa tveimur stigum gegn Argentínu
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari sló á létta strengi í viðtali eftir leikinn gegn Argentínu í dag.